Ný hugsun í málefnum fatlaðs fólks

 

 

Við ríkjandi aðstæður í okkar þjóðfélagi  þarf kjark og nýjar nálganir. Skilgreina betur en áður einstaka málaflokka og skoða jafnt kostnað sem réttindi.

Málefni fatlaðra eru  ekki undanskilin. Breyta þarf um nálgun og beita nýjum hugsunarhætti. Tryggja verður  fötluðum öflugan stuðning en með þeim hætti að ýtrustu hagkvæmni sé gætt og að réttindi til mannsæmandi lífsskilyrða séu tryggð.

Núverandi kerfi er gallað, óhagkvæmt og tryggir ekki réttindi  hins fatlaða.  Meðal galla í núverandi kerfi ;

–        Fatlaðir fá ekki að ráða hvar þeir fá sína þjónustu í búsetu og atvinnumálum.

–        Fatlaðir eru í átthagafjötrum.  Kjósi hinn fatlaði og/eða fjölskylda hans að flytja milli þjónustusvæða hvort heldur er milli Reykjavíkur og Kópavogs eða Selfoss og Borgarnes fer hann einfaldlega í „biðröðina“ á nýjum stað og getur þurft að bíða jafnvel árum saman eftir að fá fullnægjandi úrræði, sambærilegt við það sem hann hafði áður.  Ísland er að verða eitt örfárra landa sem tryggir ekki í löggjöf rétt fatlaðra til að ráða búsetu sinni sjálfir.

–        Greiðslur ríkisins fyrir einstaklinga eru mismunandi og þjónustuaðilum mismunað.

–         Aðeins  hluti fatlaðra  hefur rétt á aðstoð frá trúnaðarmanni fatlaðra.

–        Margir fatlaðir fá ekki  stuðning og þá þjónustu sem þeir eiga rétt á.  Á það bæði við um búsetu sem atvinnu.

Með því að færa málefni fatlaðra til fatlaðra sjálfra er hægt að ná verulegri hagkvæmni, efla nýsköpun en umfram allt færa réttindi fatlaðra til þeirra sem eiga að njóta þeirra, þ.e. fatlaðra sjálfra.  Hver og einn fatlaður einstaklingur fengi þá  þjónustu-ávísun sem væri stuðningur ríkisins. Stuðningurinn tæki mið af fötlun viðkomandi sem hann síðan með aðstoð aðstandenda eða trúnaðarmans tæki ákvörðun um hvert á að greiðast þ.e. á þann stað þar sem viðkomandi sækir búsetu- og/eða atvinnuþjónustu.

Fatlaðir á Íslandi búa við þjónustukerfi sem ekki þekkist annars staðar í Evrópu. Hér á landi greiðir ríkið fyrir þjónustuna, annast hana að mestu sjálft og hefur eftirlit með þjónustunni.  Almenna reglan er að ríkið greiði fyrir þjónustuna og tryggi faglegt eftirlit.

Íslendingar geta ekki lengur verið þekktir fyrir að brjóta mannréttindi á fötluðu fólki ár eftir ár bara til þess að vernda atvinnu hóps fólks sem starfar hjá hinu opinbera við það m.a. að taka ákvörðun um búsetu fatlaðs fólks. Á meðan málum er skipað hér á landi með þessum hætti er ekki hægt að tala um eitt samfélag fyrir alla.

Með því að færa málefni fatlaðra til fatlaðra sjálfra væri m.a;

–        Þjónustuþörf hvers einstaklings metin og viðkomandi hefði þá rétt á ákveðnu fjárframlagi m.t.t. þjónustuþarfar.

–         Fatlaðir geta þá „keypt“ sér þjónustu hjá viðurkenndum þjónustuaðilum.

–        Fatlaðir hvar á landi sem þeir búa fengju sama rétt og jafnan stuðning ríkisins, en ekki mismunandi stuðning eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir búa eins og raunin hefur orðið í löndum þar sem málefni fatlaðra hafa verið færð á forræði sveitarfélaga.

–        Fatlaðir væru ekki lengur í búsetufjötrum.

–        Þjónustuaðilar sæktu um rekstrarleyfi hjá félagsmálaráðuneyti.

–        Hið opinbera tryggði faglegt eftirlit með þjónustuaðilum.

–        Trúnaðarmaður fatlaðra aðstoði fatlaða án tillits til búsetuforms.

–        Nýir aðilar með ferskar hugmyndir kæmu fram sem myndu bjóða fötluðum þjónustu með breyttu fyrirkomulagi.

–        Ríkið hætti að setja fé í eigin byggyngingar fyrir fatlaða, en nýtti fé fremur í að tryggja þjónustu.

–        Þjónustuveitendum yrði gert skylt að gera samning við hvern einstakling um þá þjónustu sem hann fær hjá viðkomandi. Þegar í stað verði hætt gerð “hóp” þjónustusamninga. Slíkir samningar eru niðurlægjandi fyrir fatlaða einstaklinga og eiga ekki að þekkjast. Liðinn er nær áratugur frá því að einstaklingssamningar voru teknir upp í nágranna löndum okkar en ekkert hefur skeð í þeim málum hér á landi. Á sama tíma eru gerðir hér á landi hóp samningar um fatlað fólk sem fremur líkist útiboði á malbikunarframkvæmdum  en  lífi sjálfstæðra einstaklinga.

Mikill meirihluti fatlaðs fólks  með þroskahömlun og geðfötlun sem nýtur góðrar eða viðunandi þjónustu í veröldinni  í dag nýtur hvorki þjónustu hjá  ríki né sveitarfélögum. Þetta ættu þeir að hafa í huga sem hæst tala um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Atvinnumál fatlaðra munu að óbreyttu færast til Vinnumálastofnunar innan tíðar.  Sú breyting getur haft jákvæð áhrif, enda hætti ríkið þá sjálft á sama tíma  rekstri verndaðra vinnustaða.

Með því að opna leiðir í búsetu og atvinnumálum fatlaðra, er  best tryggt að fatlaðir einstaklingar á Íslandi njóti lögboðinna réttinda.  Að allir fatlaðir standi jafnt að vígi gagnvart fjármagni og að betri nýting fjár náist.

Löngu er  tímabært að fatlaðir hafi meira um sitt líf að segja.  Verkefni dagsins í dag er ekki  niðurskurður heldur ný hugsun.

Comments are closed.