Niðurskurður eða ný hugsun

Breski ráðherrann Francis Maude hefur kynnt einhverjar þær róttækustu breytingar í opinberum rekstri sem komið hafa fram í Bretlandi frá því á áttunda áratugnum.  Í þeim hugmyndum er horft á alla þætti s.s. afplánun fanga, velferðarmál, málefni barna og rekstur Ríkisskattstjóra.

Unnið skal að því að „frelsa“ opinbera stjórnsýslu með því að koma fram með róttækar breytingar á eignarhaldi, ábyrgð og fjármögnun.  Að sjálfsögðu er þetta umdeilt og á að vera það.  Á það er lögð áhersla að starfsfólk viðkomandi þjónustuaðila / stofnunar  hafi skýran rétt ásamt íbúum í heimabyggð á að gera kröfu um að reka viðkomandi „stofnun“ ef þeir telja sig geta gert betur en ríki og sveitarfélög gera í þeirra sveitarfélagi.

Eitt af því sem er talið mikilvægt er að starfsfólk hafi meiri hagsmuna að gæta og hafi sterkari tengsl við reksturinn.  Rekstarformin eiga að vera fjölbreytt, sveitarfélögin geta verið hluthafar, þurfa ekki að vera það,  rekstrarformin sjálfseignarstofnanir, samvinnufélög og hlutafélög.

Í Englandi á að ganga fram af framsækni, bjóða upp á tækifæri og opna möguleika á öllum sviðum.  Á Íslandi er núna verið að gera grundvallar breytingu á málefnum fatlaðra og hvað gera menn, breyta ríkisvæðingu í sveitarfélagavæðingu.  Skipta um kennitölu á kerfi sem hefur fengið falleinkunn og nánast tryggja það að fötluðum verði aðeins veitt þjónusta frá opinberum aðilum.

Allur opinber rekstur á Íslandi er til endurskoðunar.  Hér snýst umræðan um hversu mörg prósent á að skera niður á hverjum stað, í Englandi er verið að bjóða upp á nýja hugsun og nýjar leiðir þegar kemur að opinberum rekstri.

Comments are closed.