Mér finnst gott að fara í kirkju

Ég nýti flest þau tækifæri sem ég hef til að bregða mér inn í kirkju og gildir þá einu hvort ég er að ferðast innanlands eða erlendis.  Það er gott að koma í kirkju, kirkjur tala til mín á mismunandi hátt.  Kirkjur spila á tilfinningar, í einni er upplifun að biðjast fyrir, í annari að sjá listina og svo eru aðrar sem eru orðnar að ferðamannastöðum og hafa tapað uppruna sínum.

Ég velti oft fyrir mér öllum þeim fjölda af kirkjum sem við eigum á Íslandi.  Kirkjum sem eru allt of lítið nýttar og er ég enn að reyna að móta mér skoðun á því hvernig við getum betur opnað og hvatt fólk til að nýta kirkjurnar okkar betur.

Ég var á Akureyri í sumar og gerði nokkrar tilraunir til að komast inn í Akureyrarkirkju en þá voru annað hvort lokaðir atburðir eða kirkjan sjálf lokuð.  Ég gerði svo aftur tilraun núna og kirkjan enn á ný lokuð.  Hitti einstaklega almennilegan mann sem var kirkjuvörður og bauðst hann til að opna fyrir mig kirkjuna sem ég þáði og átti ég stutta og ánægjulega stund í þessari fallegu kirkju.

Akureyrarkirkja er ekki ólík öðrum kirkjum á Íslandi.   Það er samt eitthvað svo rangt við það að koma að lokaðri kirkju.  Mér finnst ég oftar koma að lokaðri kirkju á Íslandi en erlendis.

Mér hefur verið sagt að það sé of dýrt að hafa kirkju opna, að það væri ekki gengið vel um opnar kirkjur, að það væri jafnvel stolið úr opnum kirkjum, að það væri ekki hægt að hafa klósetin í Hallgrímskirkju opin vegna sprautufíkla.

Eru þetta raunverulegur ástæður þess að kirkjur eru oft lokaðar eða við takmörkum aðgengi að kirkjum?

Það hefur mikið verið „hamast“ á þjóðkirkjunni síðustu ár og mikið hefur gengið á innan kirkjunnar.  Kirkjan hefur verið í vörn og er enn.

Vissulega þarf að tryggja fjármagn og leysa úr praktískum  málum, en nauðsynleg endurreisn þjóðkirkjunnar í samfélagi okkar mun ekki eiga sér stað á grundvelli praktískra úrlausnarefna.

Endurreisn þjóðkirkjunnar mun eiga sér stað með því að kirkjan mæti ekki bara með orðum heldur einnig athöfnum sprautufíklum, þeim sem misstíga sig, þeim sem eru leitandi, flóttamönnum, fátækum og okkar minnstu bræðrum.  Ekki aðeins í formi sérþjónustu heldur einnig í samfélagi samábyrgðar og samveru.

Við þurfum að opna kirkjur okkar og þó að úr kirkjum okkar verði stolið og að þangað komi sprautufíklar, þá á það að minna okkur á mikilvægi þess að bregaðst við og hjálpa í stað þess að vera ástæða til að loka dyrum kirkjunnar.

 

 

Comments are closed.