Fjærþjónusta ekki nærþjónusta

Ef það er eitthvað sem íslendingar ættu að hafa lært síðustu misseri þá er það að nærþjónusta er ein af höfuð meinsemdum okkar litla samfélags.

Fullyrðingar eins og að sveitarstjórnarmenn séu svo nálægt notendum þjónustu, menn þekki svo vel til aðstæðna fólks í nábýli og hið íslenska kunningjasamfélag er í raun ekkert annað en nærþjónusta.

Stöðug áhersla hins opinbera á að flytja verkefni til sveitarfélaga, sem og sveitarfélaga á að fá verkefni frá ríki, allt er þetta  gert í nafni þess að  efla beri nærþjónustu.

Vafalaust hjá öllum öðrum siðmenntuðum þjóðum myndi það sem við köllum nærþjónustu vera kallað spilling og ófagleg vinnubrögð.  En á Íslandi er á tímum endurreisnar ýtt undir spillingu og mismunum undir formerkjum nærþjónustu.

Á Íslandi er staðan þannig að nú um áramót á að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga, þetta er gert þegar fyrir liggur að ríkisvaldið hefur ekki ráðið við verkefnið eins og nýútkomin skýrsla Ríkisendurskoðunar fer ágætlega yfir, sem og að ekki liggja fyrir faglegar né fjárhagslegar forsendur fyrir þessum flutningi.

Þegar dönsk sveitarfélög fóru í umbætur á sveitarstjórnarstiginu þá þótti það aðeins ganga að sveitarfélag með að lágmarki 55 þúsund íbúa gæti tekið velferðarmál að sér og voru þó málefni fatlaðra fyrir þá breytingu í ásættanlegu ásigkomulagi, en á Íslandi þar sem þjóðin rambar á barmi gjaldþrots, fjöldi sveitarfélaga er í gjörgæslu eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga, málefni fatlaðra eru stefnulaus og í algjörum ólestri, þar skal flytja málaflokkinn yfir og ekki seinna en um næstu áramót.

Þegar danir stóðu í sömu sporum og voru að flytja velferðarmál til sveitarfélaga, þá var málaflokkurinn í lagi, danska ríkið og sveitarfélögin stóðu ágætlega fjárhagslega, undirbúningur yfirfærslunnar var vel unninn ( á íslandi er það m.a. þannig að lagafrumvarp vegna yfirfærslunnar er ekki komið fram 3 mánuðum áður en yfirfærslan á að eiga sér stað).

Vegna umbóta á sveitarstjórnarstiginu í Danmörku og yfirfærslu velferðarmála til sveitarfélaga þá hefur sveitarfélögum í Danmörku fækkaði úr 269 í 98, meðal íbúafjöldi sveitarfélaga fór úr 19 þúsund í 55 þúsund íbúa.  Þetta hafði einnig þær afleiðingar að sveitarstjórnarmönnum fækkaði úr tæplega 4.600 í um  2.500 – þetta er það sem aðra Evrópuþjóðir kalla nærþjónustu.

Íslendingar fara þveröfuga leið og  misskilja enn á ný það sem átt er við með nærþjónustu.  Íslendingar þurfa fjærþjónustu, það er nærþjónustan sem er að gera út af

við þetta þjóðfélag.

Comments are closed.